Viltu styrkja FIMAK

Fallist hefur verið á umsókn um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins vegna starfsemi til almannaheilla, sbr. 2. mgr. 4. tölul. og 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Skráning kemur fram á yfirliti á vef Skattsins sbr. meðfylgjandi vefslóð:
https://www.skatturinn.is/atvinnurekstur/skattskylda/almannaheillaskra-skattfradrattur/#tab2

Skattfrádráttur

Einungis gjafir og framlög án gagngjalds skapa rétt til skattfrádráttar hjá gefanda. Þannig skapa félagsgjöld að lögaðila sem skráður er í almannaheillaskrá eða greiðslur til hans fyrir vörur og þjónustu s.s. auglýsingar ekki rétt til skattfrádráttar.

Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10 - 350 þús. kr. á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þús. kr. og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni en er ekki millifæranlegur og ber því að halda framlögum hvers einstaklings aðgreindum.

Frádráttur rekstraraðila getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt. Jafnframt er rekstraraðila heimilt að færa til frádráttar 1,5% af rekstrartekjum vegna framlaga til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, s.s. aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis o.s.frv. Því getur heildarhlutfall frádráttar í atvinnurekstri vegna gjafa og framlaga til almannaheilla og kolefnisjöfnunar orðið alls 3% af rekstrartekjum.

Móttakendur gjafa og framlaga, sem skráðir eru á sérstaka almannaheillaskrá, þurfa að gefa út kvittun við móttöku þar sem m.a. kemur fram nafn og kennitala gefanda og fjárhæð framlags. Að almanaksári loknu þarf móttakandi að taka saman upplýsingar um fjárhæð gjafa og framlaga hvers gefanda og skila þessum upplýsingum til Skattsins samhliða öðrum árlegum gagnaskilum fyrir 20. janúar ár hvert. Á grundvelli gagnaskilanna verður frádráttur áritaður á framtal gefenda.

Skilyrði fyrir frádrætti hjá gefendum er að móttakandi sé skráður á almannaheillaskrá á því tímamarki sem gjöf er afhent eða framlag veitt og gildir frádráttarheimildin um framlög sem berast frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu á almannaheillaskránna.

Þrátt fyrir framanritað gildir árið 2021 að skattfrádráttur er heimill vegna gjafa og framlaga sem berast á öllu tímabilinu 1. nóvember til 31. desember 2021 til félaga sem sótt hafa um skráningu á almannaheillaskrá á tímabilinu og fengið staðfestingu skráningar.