Lög FIMAK

Fimleikafélag Akureyrar

Lög félagsins

Nafn

1.grein

Félagið heitir Fimleikafélag Akureyrar skammstafað FIMAK. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Félagið er aðili að ÍBA,FSÍ og ÍSÍ og því háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.

Markmið

2.grein

Markmið félagsins er að efla framgang fimleikaíþróttarinnar og tengdra greina á sem fjölbreyttastan hátt og efla félagsþroska félagsmanna sinna. Jafnframt að skapa félagsmönnum sínum aðstöðu og tækifæri til að iðka íþróttir bæði keppnis- og almenningsíþróttir í öllum aldurshópum og stuðla að hvers konar félags- og tómstundarstarfsemi.

Félagar

3.grein

Einstaklingur getur orðið félagi í FIMAK með eftirgreindum hætti:

a) Sá sem æfir eða stundar íþróttir hjá félaginu eða tekur þátt í starfi félagsins.

b) Styrktarfélagi, sbr. gr. 3.1

c) Heiðursfélagi, sbr. gr. 3.2

3.1

Styrktarfélagar geta allir orðið sem þess óska, greiða þeir þá styrktarfélagsgjöld til félagsins. Styrktarfélagsgjöld eru ákveðin á aðalfundum félagsins.

3.2

Heiðursfélagi FIMAK er sæmdarheiti, sem hlotnast mönnum fyrir mikilsvert framlag þeirra til eflingar félaginu. Heiðursfélagar eru félagar sem stjórn hverju sinni samþykkir að veita slíkan titil og er sú nafnbót veitt á aðalfundum eða á sérstökum viðburðum félagsins. Stjórn skipar nefnd til að setja eða útfæra reglur um val á heiðursfélaga en allir sem teljast félagar geta lagt fram tillögu til stjórnar hverjir eigi að fá þá nafnbót. Heiðursfélagi skal njóta allra réttinda sem félagsmaður FIMAK og er undanþeginn greiðslu félagsgjalds til félagsins.

Merki – félagsbúningar

4.grein

Einkennismerki félagsins sem og litir í félagsbúningi skulu vera blár, turkis og hvítur. Stjórn er heimilt að setja reglur um keppnisbúninga félagsmanna.

Félagsfundir og skipulag

5.grein

Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins, en í umboði hans framkvæmir sú stjórn sem á honum er kosin samþykktir hans, gætir þess að félagar haldi lögin og vinni að málefnum félagsins, samanber 6.grein.

Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í maí ár hvert. Stjórn félagsins boðar til og skipuleggur aðalfundi félagsins. Auk þess getur stjórn boðað til félagsfundar ef a.m.k. 30 félagar óska þess. Ef stjórn er óstarfhæf þá ber formanni/varaformanni að fara þess á leit við ÍBA að það hlutist til um að aðalfundur sé haldinn og sjái um að hann fari fram samkvæmt lögum félagsins.

Allir félagsmenn, 18 ára og eldri, hafa kjörgengi á aðalfundum félagsins og hafa þeir rétt til eins atkvæðis. Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi félagsins.

Aðalfund og félagsfund skal boða opinberlega með minnst fjórtán daga fyrirvara

Framboð til stjórnarsetu er opið þeim félagsmönnum sem eru skuldlausir við félagið., þar til kosning um hana fer fram á aðalfundi.

Beri svo við að ekki náist að klára mál á aðalfundi má boða til framhaldsaðalfundar. Um boðun hans skal fara eins og um aðalfund, en geta skal þess að um framhaldsaðalfund sé að ræða. Framhaldsaðalfund skal halda eigi síðar en fjórum vikum eftir upphaf aðalfundar og aldrei síðar en 15. júní.

Tillögur um breytingar á lögum félagsins skal senda stjórn félagsins eigi síðar en 30 dögum fyrir aðalfund. Breytingartilögur skal birta orðrétt með fundarboði aðalfundar. Til breytinga á lögum þarf samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna. Að öðru leyti ræður afl atkvæða úrslitum mála, nema mælt sé fyrir um annað í samþykktum þessum.

Dagskrá aðalfundar skal vera, sem hér segir:

   1. Fundarsetning og ávarp formanns.
   2. Kjör fundarstjóra og fundarritara.
   3. Staðfest lögmæti fundarins.
   4. Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram.
   5. Skýrsla aðalstjórnar, framkvæmdarstjóra og nefnda.
   6. Reikningar félagsins.
   7. Umræður um skýrslur.
   8. Reikningar bornir undir atkvæði.
   9. Lagabreytingar.
   10. Kosning formanns.
   11. Kosning stjórnarmanna og 2 varamanna.
   12. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga fyrir næsta starfsár
   13. Ákvörðun styrktarfélagsgjalda
   14. Önnur mál.

Stjórn

6.grein

Stjórn félagsins skal skipuð 7 stjórnarmönnum og 2 til vara. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára, þannig að kosið er um þrjá á hverjum aðalfundi. Varamenn eru kosnir til eins árs. Stjórnarmenn, aðrir en formaður, skipta með sér verkum. Launaðir starfsmenn félagsins geta ekki tekið sæti í stjórn félagsins. Allir félagsmenn hafa rétt til að senda inn erindi til stjórnar félagsins eða óska áheyrnar stjórnar. Skal erindi eða ósk um áheyrn berast skriflega til formannis/varaformannis eða framkvæmdastjóra . Stjórn fer með málefni félagsins og skal annast um að skipulag þess og að starfsemin sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn félagsins framfylgir stefnu aðalfundar, stýrir málefnum félagsins á milli aðalfunda, vinnur að alhliða eflingu þess og gætir hagsmuna þess í hvívetna.

Varamönnum sem kosnir eru á aðalfundi ber á kjörtímabilinu að taka sæti stjórnarmanna tilkynni stjórnarmenn forföll. Óski stjórnarmaður varanlegrar lausnar frá störfum þá tekur varamaður sæti hans fram að næsta aðalfundi félagsins.Skal þá kjörinn nýr maður í stað þess sem horfið hefur úr stjórn, til þess tíma sem eftir lifir af kjörtímabili hans.

Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda og stýrir fundum. Fundi skal halda a.m.k. einu sinni í mánuði, en oftar ef þurfa þykir. Dagskrá funda skal send stjórnarmönnum með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara.

Stjórnarfundur er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir hann. Engar fullnaðarákvarðanir getur stjórn tekið nema með samþykki meirihluta stjórnarmanna. Vægi atkvæða ræður úrslitum, en ef atkvæði skiptast jafnt ræður atkvæði formanns félagsins úrslitum,sé hann fjarverandi verður málum ekki ráðið til lykta á þeim fundi, falli atkvæði jöfn. Stjórn skal halda gerðarbók um það sem gerist á stjórnarfundum og staðfesta hana.

Stjórn hefur heimild til að ráða aðila til starfa, þar með talið framkvæmdastjóra, sem koma ákvörðunum stjórnar í framkvæmd og stýra rekstri og faglegu starfi félagsins. Stjórnendur reksturs og faglegs starfs skulu í starfi sínu vinna með þeim nefndum/deildum sem starfa innan vébanda félagsins. Stjórn er heimilt að setja reglur um einstaka þætti í starfsemi félagsins, enda fari þær ekki í bága við lög þessi.

Stjórnendur reksturs og faglegs starfs félagsins mega sitja fundi stjórnar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

Stjórn getur skipað starfshópa vegna ákveðinna verkefna. Ætíð skal skipaður formaður í viðkomandi starfshópi og skal hann bera ábyrgð á boðun funda í hópnum og hafa samskipti við stjórn.

Stjórn hefur umráðarétt yfir öllum sameiginlegum eigum félagsins og sér um rekstur þeirra og varðveislu. Stjórn hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins og ber ábyrgð á fjármunum þess.

Reikningsár og form skuldbindinga fyrir hönd félagsins.

7.grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Ef ársreikningar félagsins eru unnir af löggildum endurskoðendum er ekki þörf á skoðunarmönnum reikninga. Annars skal afhenda skoðunarmönnum, reikninga ásamt fylgigögnum, eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Skoðunarmenn eiga að árita reikninga og ef þörf þykir, skila skýrslu á aðalfundi undir liðnum “Reikningar félagsins”.

8.grein

Undirskrift meirihluta stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið. Stjórn félagsins getur veitt gjaldkera og/eða stjórnanda reksturs(framkvæmdastjóra) prókúru til að skuldbinda félagið vegna daglegs rekstur þess, s.s. heimild til ráðstöfunar fjármuna af tékkareikningi og greiðslu reikninga og launa starfsmanna.

Framkvæmdastjóri, sé hann ráðinn, annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjón hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar.

9. grein

Félaginu er óheimilt að taka langtíma lán eða veðsetja eignir sínar.

Félagaskipti / keppnisreglur

10.grein

Félagaskipti fara fram samkvæmt lögum og reglugerðum ÍSÍ og sérsamböndum þess.

Keppnisreglur skulu vera eftir samþykktum FSÍ.

11. grein

Í janúar byrjun ár hvert skal velja íþróttamann ársins úr hópi iðkenda hjá Fimleikafélagi Akureyrar, FIMAK, vegna þess almanaksárs sem er liðið. Unnið skal eftir reglum sem stjórn eða nefnd á vegum stjórnar setur um val á íþróttamanni félagsins.

12. grein

Stjórn félagsins ber að varðveita öll þau skjöl og önnur gögn sem geyma heimildir um störf félagsins, eignir þess, nákvæma félagaskrá, reikninga og bréfaskriftir. Einnig skýrslur yfir mót sem félagið tekur þátt í og /eða efnir til. Allar nefndir/starfshópar á vegum félagsins skulu halda gerðarbók um verkefni sín og fundi þeim tengdum og skila til stjórnar.

13. grein.

Tillögur um félagsslit skulu sæta sömu meðferð og lagabreytingar. Komi til þess að félagið verði leyst upp skulu eignir þess vera í vörslu ÍBA og ráðstafar stjórn þess þeim í sem bestu samræmi við þann tilgang og markmið sem félaginu var sett í upphafi.

Lög þessi taka gildi 17. apríl 2013. Jafnframt falla úr gildi eldri lög félagsins