LÖG KNATTSPYRNUFÉLAGS AKUREYRAR

 

LÖG KNATTSPYRNUFÉLAGS AKUREYRAR - samþykkt á aðalfundi KA 10.4.2019  

1. gr.

Félagið heitir Knattspyrnufélag Akureyrar, skammstafað K.A. Heimili félagsins og varnarþing er á Akureyri.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að vinna að eflingu íþróttastarfsemi á Akureyri, glæða áhuga almennings á gildi íþrótta og virkja sem flesta til þátttöku í þeim.

3. gr.

Merki félagsins er rauður skjöldur á bláum skildi. Á rauða skildinum er gylltur eða hvítur knöttur og ofan hans standa bókstafirnir KA í hvítum lit. Um skildina er hvítur rammi. Aðalkeppnisbúningur félagsins skal vera gulur og blár. Aðalstjórn er heimilt að útfæra breytt form á merki félagsins sem notast má við í tilteknum tilvikum.

4. gr.

Allir iðkendur, stjórnarmenn deilda og starfsmenn félagsins teljast félagsmenn. Einnig getur hver sá orðið félagi, er sækir skriflega um inngöngu og gangast vill undir lög þess.

Framkvæmdastjóri skal halda félagaskrá á tölvutæku formi yfir alla meðlimi félagsins, svo séð verði á hverjum tíma hverjir eru fullgildir meðlimir þess.

Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til skrifstofu félagsins sem jafnframt sér um innheimtu árgjalda.

5. gr.

Félagar skulu greiða árgjald til félagsins. Skal það ákveðið á aðalfundi ár hvert. Árgjaldið rennur í aðalsjóð félagsins.

Aðalstjórn getur kjörið heiðursfélaga úr röðum félagsmanna. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda.

6. gr.

Knattspyrnufélagi Akureyrar skal skipt í deildir. Fjöldi deilda fer eftir fjölda íþróttagreina sem hjá félaginu eru stundaðar. Aðalstjórn félagsins skal vinna eftir skipuriti sem endurskoðað skal eftir þörfum.

Hver deild skal vera fjárhagslega sjálfstæð og annast daglegan rekstur innan þess ramma sem aðalstjórn og fjárhagsráð setur hverju sinni. Hver deild hefur tekjur af ágóða móta og kappleikja í viðkomandi grein svo og annarri fjáröflun sem hún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn. Að öðru leyti lúta deildirnar sameiginlegri aðalstjórn félagsins, sem fer með æðsta vald í málum þess milli aðalfunda. Ákvörðun um stofnun nýrrar deildar innan félagsins verður aðeins tekin á aðalfundi eða félagsfundi, sbr. 22. gr., og skal studd greinargerð frá aðalstjórn.

7. gr.

Aðalstjórn skal skipa þrjá menn í fjárhagsráð til tveggja ára í senn. Hlutverk fjárhagsráðs er að hafa eftirlit með fjárreiðum deilda félagsins. Rekstraráætlanir deilda skulu lagðar fyrir fjárhagsráð til samþykktar amk. tveimur mánuðum fyrir upphaf keppnistímabils viðkomandi deildar. Aðalstjórn setur nánari reglur um starfsemi fjárhagsráðs.

8. gr.

Aðalfund félagsins skal halda ekki síðar en 30. apríl ár hvert. Aðalfundur hefur æðsta vald innan félagsins og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Aðalfund skal auglýsa opinberlega með minnst 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

9. gr.

Dagskrá aðalfundar 
1. Formaður setur fundinn 
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara 
3. Skýrsla stjórnar 
4. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar 
5. Lagabreytingar 
6. Ákvörðun árgjalda 
7. Kosning stjórnar, varastjórnar og endurskoðenda - skoðunarmanna. 
8. Kosning nefnda. 
9. Önnur mál.

10. gr.

Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi. Þó öðlast lagabreytingar  því aðeins gildi að þær hljóti samþykki tveggja þriðju hluta þeirra sem atkvæði greiða, enda taki fullur helmingur þeirra, sem á fundi eru, þátt í atkvæðagreiðslunni. Tillögur til breytinga á lögum félagsins, undirritaðar af flutningsmönnum, skulu sendar aðalstjórn 8 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Sami frestur gildir um framboð til stjórnar. Aðalstjórn félagsins skal auglýsa tillögur um lagabreytingar með minnst viku fyrirvara.  Kosningar skulu vera skriflegar og leynilegar, sé þess óskað. Falli atkvæði jöfn skal kosning endurtekin einu sinni. Verði þá aftur jafnt skal hlutkesti ráða.

11. gr.

Allir skuldlausir félagsmenn 18 ára og eldri hafa atkvæðisrétt, málfrelsi, tillögurétt og kjörgengi til stjórnarstarfa á aðalfundi félagsins.

12. gr.

Félagsfund skal halda ef aðalstjórn telur nauðsynlegt eða ef 10 af hundraði atkvæðisbærra félaga óska þess. Óskir um félagsfund skulu berast aðalstjórn skriflega auk þess sem tilgreina þarf fundarefni það sem ræða skal. Félagsfund skal boða með sama hætti og reglulegan aðalfund. Reglur um félagsfund eru þær sömu og um aðalfund að undanskildum lagabreytingum og stjórnarkjöri.

13. gr.

Aðalstjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Formaður skal kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Allir félagsmenn félagsins sem eru fjárráða geta boðið sig fram til stjórnarstarfa. Formaður félagsins getur ekki á sama tíma verið formaður deildar. Kjörtímabil stjórnar er milli aðalfunda. Á aðalfundi skal einnig kjósa einn varamann stjórnar og tvo endurskoðendur (skoðunarmenn) reikninga félagsins og einn til vara. Formaður skal jafnan boða varamann til fundar. 
Varamaður hefur ávallt rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt.

Aðalstjórn skal boða formenn hverrar deildar á stjórnarfundi og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt á þeim fundum. Formenn deilda geta sent fulltrúa sinn á aðalstjórnarfundi séu þeir forfallaðir.

14. gr.

Aðalstjórn skal semja ársreikning félagsins og stjórnir deilda ársreikninga hverrar deildar. Ársreikningurinn skal gerður samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju. Hann skal sýna yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok reikningsárs ásamt skýringum. Í ársreikningi skal sýna fjárhagsáætlun reikningsársins til samanburðar og í honum skal koma fram yfirlit um fjárhagslegar skuldbindingar félagsins.

Fyrir upphaf hvers starfsárs skulu stjórnir deilda gera fjárhagsáætlun fyrir komandi ár sem skal lögð fyrir aðalstjórn til samþykktar. Fjárhagsáætlun sem aðalstjórn hefur samþykkt skal vera meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn félagsins á viðkomandi reikningsári. Við gerð fjárhagsáætlunar skal hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu félagsins og hverrar deildar.

15. gr.

Formaður boðar til stjórnarfunda, svo oft sem hann telur nauðsynlegt eða ef einhver stjórnarmaður óskar þess. Stjórnarfundir eru löglegir ef meirihluti stjórnar er mættur. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum. Falli atkvæði jafnt, ræður atkvæði formanns.

16. gr.

Aðalstjórn skal vinna að því að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess útávið. Hún skal einnig samræma starfsemi félagsins innávið og hafa eftirlit með starfsemi deildanna. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess í öllum veigamiklum málum. Hún skal þó jafnan hafa samráð við stjórnir deildanna um mál er þær varðar sérstaklega.

17. gr.

Aðalstjórn veitir, að höfðu samráði við stjórnir deildanna, viðurkenningar fyrir íþróttaárangur eða störf í þágu félagsins, samkvæmt sérstakri reglugerð, sem samþykkt skal á aðalfundi.

18. gr.

Meirihluti stjórnar félagsins ritar firma þess. Stjórn félagsins er heimilt að veita prókúruumboð og eru allar fjárskuldbindingar félagsins og deilda þess háðar samþykki prókúruhafa. Óheimilt er að skuldbinda félagið eða deildir þess með persónulegum ábyrgðum einstaklinga. Allar meiriháttar eða óvenjulegar ráðstafanir gerðar í nafni Knattspyrnufélags Akureyrar eða deilda þess skulu bornar undir stjórn fyrirfram til samþykktar.

19. gr.

Framkvæmdastjóri er ráðinn af aðalstjórn og starfar í umboði hennar.

Framkvæmdastjóri ræður allt annað starfsfólk. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem aðalstjórn hefur gefið. Hann hefur umsjón með gerð rekstraráætlana fyrir félagið og ber ábyrgð á framkvæmd þeirra. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá aðalstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana aðalstjórnar án verulegs tjóns fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal aðalstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Aðalstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.

20. gr.

Hver deild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn, sem skipuð er þremur mönnum hið fæsta. Skulu þeir kosnir á aðalfundum deildanna, en hver deild skal halda aðalfund árlega. Reglur um fundarboðun, lögmæti fundar, dagskrá og atkvæðagreiðslur sem gilda um aðalfund félagsins, gilda einnig um aðalfund deildanna, eftir því sem við á. Að loknum aðalfundi hverrar deildar sem halda skal fyrir lok apríl ár hvert  skulu stjórnir deildanna skila aðalstjórn skýrslu sinni um starfsemi deildar, ásamt endurskoðuðum og samþykktum reikningum deildarinnar. Óski deild eftir að halda aðalfund að loknu keppnistímabili þeirrar deildar skal beiðni um slíkt send aðalstjórn sem samþykkir eða synjar beiðni deildar. Aðalstjórn skal taka helstu atriði úr skýrslum deildanna upp í skýrslu sína á aðalfundi félagsins.

21. gr.

Vanræki íþróttadeild að halda aðalfund á lögákveðnum tíma, skal aðalstjórn boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

22. gr.

Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrrar íþróttadeildar innan félagsins, skal senda aðalstjórn félagsins þær skriflega. Er stjórninni þá skylt að leggja tillöguna fyrir á félagsfundi eða fyrir næsta reglulegan aðalfund félagsins. Samþykki aðalfundur eða félagsfundur stofnun nýrrar deildar, með tilskildum meirihluta skv. 10. gr., skal aðalstjórn sjá um að boða til stofnfundar, sem skal fara fram eftir reglum þeim sem gilda um aðalfundi deilda.

23. gr.

Eigi sjaldnar en þrisvar á ári skal aðalstjórn félagsins halda fund með formönnum deildanna, þar sem þeir gera stjórninni grein fyrir starfsemi deildanna. Á fundum þessum skal einnig ákveða skiptingu styrkja og annarra tekna aðalsjóðs félagsins milli deildanna og samræma starfsemi þeirra. Komi upp ágreiningur milli einstakra deilda, sker aðalstjórn úr.

Fulltrúar aðalstjórnar hafa rétt til að sitja alla fundi félagsins og deilda þess. Hafa aðalstjórnarmenn málfrelsi og tillögurétt á fundum deilda félagsins. Alla stjórnarfundi innan félagsins sem og félags- og aðalfundi, skal skrá í fundargerðarbækur.

24. gr.

Reikningsár félagsins og deilda þess er almanaksárið.

25. gr.

Allar eignir félagsins, hvort sem þær eru í umsjá aðalstjórnar eða einstakra deilda, eru sameign félagsins. Hætti íþróttadeild starfsemi, skal stjórn hennar afhenda aðalstjórn allar eignir hennar svo og fundargerðarbækur og önnur gögn sem varða starfsemi hennar. Verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu ávallt vera í vörslu aðalstjórnar.

27. gr.

Hafi meðlimur félagsins brotið samþykktir þess með framkomu sinni, hnekkt áliti félagsins og markmiði verulega, skal honum hegnt með brottrekstri úr félaginu samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar. Úrskurður hennar er því aðeins gildur að minnsta kosti 4/5 aðalstjórnar sé honum samþykkir. Skylt er aðalstjórn að boða hinn brotlega á sinn fund og gefa honum kost á að tala máli sínu.

28. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi öll eldri lög félagsins.