Íþróttastarf verður óheimilt um allt land þar til 17. nóvember.

Því miður þá stöndum við aftur frammi fyrir því að íþróttastarf verður óheimilt um allt land þar til 17. nóvember samkvæmt nýjum hertum sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á miðnætti í kvöld, 30. október. 

Í Reglugerð frá heilbrigðisráðherra má lesa að íþróttir, þar með talið æfingar og keppnir, barna og fullorðinna hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.

Nánari tilkynningar er hægt að lesa á vefsíðum ÍBA, FSÍ, ÍSÍ og UMFÍ.

Reglurnar verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.

Við minnum á sóttvarnir, handþvott, fjarlægð við fólk og notkun maska til að jörðin okkar nái aftur jafnvægi og hægt verði að taka upp það líferni sem var fyrir COVID-19.  Með jákvæðu hugarfari, þolinmæði og samstöðu komumst við í gegnum þessa erfiðu tíma saman (en samt í sundur).

Stjórn FIMAK