Íþróttamaður FIMAK 2020 - Salka Sverrisdóttir

Íþróttamaður Fimleikafélags Akureyrar árið 2020 er Salka Sverrisdóttir. Salka hefur frá leikskólaaldri æft áhaldafimleika hjá Fimak, lengst af undir stjórn Florin og Mirelu Paun en síðastliðinn vetur hjá Mihaelu og Jan Bogodoi.

Salka kláraði lokaþrep íslenska fimleikastigans vorið 2019 og tóku þá við æfingar og keppni í frjálsum æfingum en þess má geta að Salka er fyrsti iðkandi Fimak til að keppa í frjálsum æfingum fyrir hönd félagsins og í vor keppti hún með fyrsta liði Fimak í frjálsum æfingum á Bikarmóti FSÍ. Á síðasta ári var hún fyrst iðkenda Fimak valin í unglingalandslið stúlkna í áhaldafimleikum og var stefnan sett á þátttöku á Norðurlandamóti sem því miður féll niður vegna Covid.

Salka er dugleg, ósérhlífin og viljasterk og þessir eiginleikar hafa fleytt henni langt í íþróttinni. Hún er mikil og góð fyrirmynd annarra iðkenda félagsins, hjálpsöm, réttsýn og vingjarnleg og það er yfirleitt mikið fjör í kringum hana á æfingum. Hún er verðugur handhafi titilsins íþróttamaður Fimak og við óskum henni alls hins besta í framtíðinni.