íþróttamaður Akureyrar fór fram 20. janúar

Salka, Kata & Jóhann
Salka, Kata & Jóhann

Þann 20. janúar fór fram kjörið um íþróttamann Akureyrar árið 2020. Fyrir valinu urðu Aldís Kara Bergsdóttir listskautakona í Skautafélagi Akureyrar og Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður. Sú nýbreytni á valinu varð fyrir tveim árum að aðildafélög ÍBA senda inn tilnefningar til ÍBA og Afrekssjóðsnefnd fer yfir tilnefningarnar og velur 10 efstu fyrir hvort kyn. Fimleikafélagið hefur ekki alltaf getað sent inn tilnefningar þar sem aldursviðmið er 16 ára. Í ár erum við stolt af því að hafa tilnefnt 3 iðkendur í valið sem er ákveðin sigur fyrir okkar félag. Því miður þá var ekkert af þeim valið inn sem 10 efstu en við erum engu að síður afar stolt af þessum krökkum sem hafa náð gríðarlega langt í sinni grein og spennandi að fylgjast með hvert þau stefna í framtíðinni.

Tilnefndir frá FIMAK voru:

 

Þorgerður Katrín Jónsdóttir úr hópfimleikum. 

Kata keppti bæði með 1. og 2. flokki á keppnistímabilinu 2019-2020, og lenti hún í 3. sæti með 1. flokknum á bikarmótinu í mars 2020. Hún hefur tekið miklum framförum á öllum áhöldum á árinu og náði meðal annars lágmarkskröfum til þess að komast á landsliðsúrtaksæfingar.

Kata er harðdugleg og metnaðargjörn. Hún leggur sig ávallt alla fram á æfingum, er jákvæð og drífandi og hvetur aðra iðkendur áfram. Hún tekur stöðugum framförum og setur miklar kröfur á sjálfa sig. Hún er góð fyrirmynd fyrir aðra iðkendur, enda alltaf stutt í brosið. Hún framkvæmir erfið stökk og er hvetjandi við liðsfélaga sína.  

Jóhann Gunnar Finnsson úr áhaldafimleikum.

Jóhann varð fyrstur drengja frá FIMAK til þess að keppa í 1. þrepi. Á fyrsta móti keppnistímabilsins, haustmóti 2019 varð hann í 2. sæti í fjölþraut og 2. sæti á gólfi. Hann lenti í 4. sæti í fjölþraut og í 3.sæti á stökki á Þrepamótinu sem fram fór í byrjun febrúar. En fleiri urðu mótin ekki árið 2020.

Jóhann er mjög duglegur og hefur lagt mikið á sig til þess að ná þeim árangri sem hann hefur náð. Hann er frábær fyrirmynd yngri iðkenda og þá sérstaklega fyrir næstu kynslóð drengja sem hann þjálfar nú hjá félaginu. Jóhann kemur ávallt vel fram, er kurteis og ábyrgur.

Salka Sverrisdóttir úr áhaldafimleikum.

Stærsta afrek Sölku á árinu var að hún var valin í unglingalandslið Íslands í áhaldafimleikum. Hún er fyrsti iðkandi FIMAK sem nær þeim árangri. Valið fór fram í janúar 2020 en því miður sökum ástandsins varð lítið um æfingar eða viðburði á þeim vettvangi. Engu að síður er þetta stór viðurkenning fyrir hana sem fimleikakonu og var hún vel að valinu komin.

Keppnistímabilið var eðli málsins samkvæmt stutt, hún glímdi við meiðsli seinni hluta árs 2019 og missti af fyrsta móti keppnistímabilsins en keppti á bikarmóti Fimleikasambandsins Íslands 2020 í frjálsum æfingum. Hún er jafnframt fyrsti keppandi FIMAK til þess að keppa í frjálsum æfingum. Hún átti síðan sæti á Íslandsmótinu en það mót fór því miður aldrei fram.

Salka er mjög metnaðargjörn og leggur sig alla fram við að ná markmiðum sínum sem er m.a. að komast á næsta stórmót erlendis með landsliðinu. Hún er harð dugleg, ósérhlífin og viljasterk. Hún er góður vinur vina sinna og það er yfirleitt mikið fjör í kringum hana. Hún er mikil fyrirmynd yngri iðkenda og á framtíðina fyrir sér.