Fimleikar - Prufutímar

Í upphafi haustannar býður fimleikafélagið upp á prufutíma. Nokkur pláss eru laus hjá félaginu og því tilvalið að prófa tíma. Fimleikar eru frábær grunnur að hreyfingu þar sem æfingar eru blanda af styrk, þoli, teygjum og tækni. Nokkrar greinar fimleika eru í boði hjá félaginu og má þar nefna leikskólahópana, grunnhópa, áhaldafimleika, hópfimleika og Parkour. Félagið leggur mikla áherslu á menntun þjálfara og tekur virkan þátt í að senda ráðna þjálfara á þjálfaranámskeið sem haldin eru á vegum Fimleikasambands Íslands ásamt því að taka almenn þjálfaranámskeið á vegum ÍSÍ. Skráningar í alla hópa nema laugardagshópa fara fram í gegnum skráningarform á Sportabler ýmist beint í viðeigandi hóp eða í gegnum nýskráningu.

Laugardagshópar: Stutt upphitun með leikjum og æfingum tvinnuðum saman. Eftir upphitun er farið í þrautabraut þar sem samsetning þrauta er mismunandi og reynir á jafnvægi, styrk, tækni, kjark og úthald. Aðstoðarþjálfarar dreifa sér um þrautabrautina tilbúnir að aðstoða og/eða hvetja áfram eftir því sem við á. Tímarnir hjá 2-4 ára eru í 45 mínútur og í 60 mínútur hjá 5 ára og fá krakkarnir góða útrás á laugardagsmorgni. Æfingar hefjast laugardaginn 4. september og fer skráning fram í vefverslun Sportabler.

Grunnhópar: Eru fyrir 6-8 ára krakka. í Grunnhópum er lögð áhersla á að kynna fyrir krökkum þær fimleikagreinar sem í boði eru. Æfð eru áhöld eins og slá, gólfæfingar, stökk og trampólín ásamt því að lögð er áhersla á styrk, teygjur og tækni. Æft er 2x í viku. 1.-10. september er í boði fyrir 6 ára stelpur að koma og prófa æfingar hjá A2 eða A3 eftir því hvað hentar betur (sjá stundatöflu á www.fimak.is). 7-8 ára stelpum stendur til að boða að prófa æfingu hjá A1. 6-8 ára strákar þurfa að senda inn nýskráningu á Sportabler til að fá boð um að prófa tíma.

Áhaldafimleikar: Áhaldafimleikar eru einstaklingsmiðaðar æfingar þar sem áhersla er lögð á einstaklingskeppni. Æft er á stökki, tvíslá , slá og gólfi hjá stúlkum og hjá strákum er æft á gólfi, bogahest, hringjum, stökki, tvíslá og rá. Hjá félaginu starfa erlendir þjálfarar með mikla þekkingu a sviði þjálfunar. Æfingatími fer eftir því hve langt iðkandi hefur náð í greininni. 9 ára og eldri sem vilja prófa greinina þurfa að skrá sig í nýskráningu á Sportabler og haft verður samband til að finna hentuga tímasetningu til að prófa.

Hópfimleikar: Hópfimleikar er liðakeppni. Þessi grein hefur verið að njóta vaxandi vinsælda um allan heim og mikið fjör á æfingum og mótum þar sem greinin gengur út á tækni, kraft og hraða. Æfingar fara fram í dansi á gólfi, á fiber dýnuog á trampólíni og stökk yfir hest. Aldursskipt er í hópfimleikum og æfa tveir árgangar saman í flokk. Æft er 3-5x í viku, oftar eftir því sem iðkendur eldast. Hópfimleikar er jafnt fyrir stráka og stelpur 9 ára og og eldri og við bendum þeim sem vilja prófa á að skrá sig í gegnum Sportabler í nýskráningu og haft verður samband til að finna tíma til að prófa.

Parkour: Parkour er fyrir 7 ára og eldri. Parkour gengur meðal annars út á að sjá umhverfið sitt í nýju ljósi og aðlaga æfingarnar sem gerðar eru að því. Í parkour er markmiðið að komast bestu leiðina frá einum stað til annars og á sem skilvirkastan og hraðastan hátt. Það inniheldur hlaup, klifur, sveiflur, hopp, veltur, skrið og fleiri æfingar sem hentar hverjum aðstæðum sem best. Parkour er ekki keppnisíþrótt heldur sýningaríþrótt. Þeir sem vilja prófa Parkour þurfa einnig að skrá sig í nýskráningu á Sportabler og haft verður samband þegar hægt verður að prófa greinina.

Allar frekari upplýsingar er að finna á www.fimak.is og einnig hægt að senda fyrirspurnir á skrifstofa@fimak.is